Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Lærðu að hlusta betur á líkamann og innsæið

image description
  • Dagsetning

    9. jan 2026 - 27. feb 2026

  • Verð

    110.000 kr.

  • Fyrirkomulag

  • Sækja um

Á þessu námskeiði kynnist þú Focusing og Thinking at the Edge (TAE) — tveimur aðferðum sem hjálpa þér að hlusta á líkamann og treysta því sem þú finnur en hefur ekki ennþá getað sett í orð. Aðferðirnar byggja á hugmyndum Eugene Gendlin, sem rannsakaði hvernig líkaminn geymir reynslu okkar og gefur okkur merki sem við getum lært að skilja betur.

Við þekkjum öll tilfinninguna að eitthvað „sé rétt“ eða „rangt“, eða að fá hnút eða fiðrildi í magann. Með Focusing og TAE lærir þú að staldra við og hlusta á þessi merki, þannig að þau geti hjálpað þér áfram – bæði í daglegu lífi og í skapandi vinnu.

Aðferðirnar geta hjálpað þér að:

  • Átta þig á hvað þér raunverulega finnst og hvað þú vilt.

  • Taka skýrari ákvarðanir og finna lausnir á nýjan, skapandi hátt.

  • Vera mildari og skilningsríkari gagnvart sjálfri/sjálfum/sjálfu þér og öðrum.

  • Minnka streitu og tengja betur líkama, hug og innsæi.

Námskeiðið er fyrir öll sem vilja læra að hlusta dýpra á sjálfan sig—og nýtist líka vel í kennslu, rannsóknum og listsköpun. Við förum yfir grunnatriði aðferðanna og æfum fyrstu skrefin í notkun þeirra.

Námskeiðið stendur yfir í 8 vikur, alla föstudaga frá 9. janúar til 27. febrúar, frá 13-15.30.

Fyrri hluti námskeiðsins verður 1. stig í Focusing og seinni hlutinn 2. stig í Focusing og grunnur í Thinking at the Edge.

Um kennarana: Kennarar á námskeiðinu eru Helga Arnalds sviðs-og myndlistakona og Guðbjörg R. Jóhannesdóttir heimspekingur.

Helga er með meistaragráðu i sviðslistum frá Listaháskóla Islands, BA i myndlist frá LHÍ og BA i brúðuleikhúsi frá Instituto del Teatro i Barcelona. Hún var handhafi Íslensku Bjartsýnisverlaunanna árið 2012 og Ibby verðlaunanna árið 2000. Sýningar hennar með leikhópnum 10 FINGUR e.o. LÍFIÐ sem var valin besta barnaleiksýning ársins og Sproti ársins 2015 og Skrímslið litla systir mín sem var valin barnasýning ársins 2012 hafa ferðast viða um Evrópu og Asíu á undanförnum 20 árum.Verk hennar beinast oft að vinnu með lífræn eða ólífræn efni og tengslum þeirra við innri skynjun bæði flytjanda og áhorfenda. Hún hefur þróað ákveðna aðferð með leikhópnum sem byggir á því að hlusta á efni og gefa þeim líf á sviðinu.

Guðbjörg er prófessor við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Hún lauk MA prófi í Values and the Environment frá Lancaster University árið 2006 og sneri svo aftur til Háskóla Íslands þaðan sem hún lauk doktorsverkefni um landslag og fagurferðilegt gildi. Rannsóknir hennar beinast að umhverfisfagurfræði, umhverfissiðfræði, fyrirbærafræði, skynjaðri þekkingu, líkamleika, landslagi, þverfaglegu starfi og þátttöku. Bók hennar Vá! Ritgerðir um fagurfræði náttúru kom út í lok árs 2020. Guðbjörg vinnur nú ásamt fleirum að rannsóknarverkefninu Freedom to make sense: embodied, experiential and mindful research sem rannsakar leiðir til fræðilegrar hugsunar, hlustunar og tjáningar sem byggjast á „skynfinningu.“ Helga og Guðbjörg kynntust í gegnum starfsemi listahópsins Big Body sem Helga er í forsvari fyrir. Guðbjörg kynnti þar rannsóknir sínar og aðferðir Gendlin í vinnustofu hópsins.

Síðan þá hafa þær unnið saman innan Big Body og fleiri verkefna og báðar lokið menntun sem Focusing kennarar frá International Focusing Institute.

Kennari

Helga Arnalds/Guðbjörg Jóhannesdóttir

Tungumál kennslu

ice

Umsóknarfrestur

9. jan 2026